Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 222/2017

Nr. 222/2017 28. febrúar 2017

REGLUR
um nefnd um eftirlit með lögreglu.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglur þessar gilda um störf nefndar um eftirlit með lögreglu, sbr. VII. kafla lögreglulaga, nr. 90/1996.

Markmið með reglunum er að stuðla að vandaðri og samræmdri málsmeðferð þegar borgararnir telja á sér brotið í samskiptum við lögreglu í þeim tilgangi að tryggja vandaða starfshætti lög­gæslu­stofnana og réttaröryggi borgaranna. 

2. gr.

Hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu.

Meginhlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu er að taka til athugunar mál sem til hennar er beint af hálfu borgaranna eða henni berast tilkynningar um frá handhöfum lögreglu- og ákæruvalds og varða ætluð refsiverð brot starfsmanna lögreglu, ámælisverða háttsemi eða framkomu starfsmanna lögreglu, almenna starfshætti lögreglunnar og öll mál þar sem maður lætur lífið eða verður fyrir stórfelldu líkamstjóni í tengslum við störf lögreglu.

Nefndin skal greina þau erindi sem henni berast, senda þau til meðferðar hjá viðeigandi stjórnvaldi, hafi slík meðferð ekki þegar hafist, og fylgjast með afgreiðslu þeirra. Hún fer sjálf hvorki með ákæruvald, rannsókn sakamála né vald til að beita starfsmenn lögreglu viðurlögum.

Nefndin getur tekið atvik og verklag lögreglu upp að eigin frumkvæði. 

3. gr.

Skipan nefndar um eftirlit með lögreglu.

Ráðherra skipar nefnd um eftirlit með lögreglu, sbr. 35. gr. lögreglulaga. Nefndin er sjálfstæð stjórn­sýslu­nefnd og er ekki unnt að skjóta ákvörðunum hennar til æðra stjórnvalds.

II. KAFLI

Málsmeðferð.

4. gr.

Tilkynningar til nefndarinnar.

Nú telur borgari að starfsmaður lögreglu hafi (1) framið refsivert brot í starfi, (2) viðhaft ámælis­verða starfsaðferð eða framkomu í starfi eða (3) hann er ósáttur við almenna starfshætti lög­reglu og getur hann þá leitað til nefndarinnar með tilkynningu og óskað eftir að mál hans verði tekið til athugunar. Nefndinni er einnig heimilt að taka mál upp að eigin frumkvæði.

Ríkissaksóknari eða héraðssaksóknari skulu að eigin frumkvæði upplýsa nefndina ef þeim hafa borist kærur eða rannsókn hefur hafist vegna ætlaðs brots starfsmanns lögreglu.

Berist ríkissaksóknara, héraðssaksóknara, lögreglustjóra eða öðrum yfirvöldum tilkynning um að starfsmaður lögreglu hafi viðhaft ámælisverða starfsaðferð eða framkomu í starfi eða um að borgari sé ósáttur við almenna starfshætti lögreglu skal án tafar framsenda nefndinni tilkynninguna til meðferðar.

Erindi frá lögaðilum skulu sæta sömu meðferð og frá einstaklingum. 

5. gr.

Greining á tilkynningu.

Nefndin skal leggja mat á efni tilkynningar. Tilkynning sem berst nefndinni skal fá málsnúmer og skráningu í málaskrá nefndarinnar. Hið sama á við ef nefndin tekur mál upp að eigin frumkvæði. Nefndin skal hraða meðferð máls eftir því sem kostur er og rannsóknarhagsmunir krefjast og að jafnaði ljúka meðferð þess innan mánaðar frá móttöku tilkynningar. Fullskipuð nefnd skal fjalla um tilkynningu borgara.

Ef nefndin telur ekki efni til að vísa tilkynningu borgara til frekari meðferðar skal honum gerð grein fyrir því ásamt rökstuðningi.

Ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, héraðssaksóknara og lögreglustjórum er skylt að afhenda nefndinni þær upplýsingar sem hún þarf til að sinna starfsskyldum sínum. 

6. gr.

Framsending á tilkynningu.

Ef tilkynning lýtur að ætluðu refsiverðu broti starfsmanns lögreglu sendir nefndin hana til héraðs­saksóknara. Varði tilkynning starfsmann héraðssaksóknara skal hún send ríkissaksóknara.

Telji nefndin tilkynningu varða starfsaðferðir eða framkomu starfsmanns lögreglu sendir nefndin þá tilkynningu til lögreglustjóra í því umdæmi sem viðkomandi starfar. Eigi atvik sér stað utan þess umdæmis skal lögreglustjóra í því umdæmi þar sem atvik átti sér stað jafnframt tilkynnt um fram­sendingu. Ef kvörtun lýtur að ætluðum ámælisverðum starfsaðferðum eða framkomu lögreglu­manns í starfi við embætti héraðssaksóknara eða ríkislögreglustjóra skal tilkynning send héraðs­saksóknara eða ríkislögreglustjóra til meðferðar, eftir því sem við á.

Nú lýtur tilkynning borgara að einhverju leyti eða öllu að almennum starfsháttum lögreglu og skal nefndin þá framsenda hana ríkislögreglustjóra til meðferðar. 

7. gr.

Málsmeðferð vegna tilkynningar um ætlað refsivert brot.

Héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari skulu að jafnaði innan mánaðar frá móttöku framsendrar tilkynningar, samkvæmt 1. mgr. 6. gr., taka ákvörðun um hvort hefja skuli rannsókn eða hvort vísa skuli frá kæru. Um málsmeðferð fer eftir lögum um meðferð sakamála.

Héraðssaksóknari og ríkissaksóknari skulu veita nefndinni upplýsingar um meðferð máls samkvæmt 1. mgr. og um niðurstöðu máls þegar því er endanlega lokið. Héraðssaksóknari skal beina ábendingu til nefndarinnar ef fram hafa komið vísbendingar við meðferð máls um að starfsmaður lögreglu hafi viðhaft ámælisverða starfsaðferð eða sýnt af sér óviðeigandi framkomu í samskiptum við borgara sem ekki telst vera á því stigi að um sé að ræða refsivert brot í starfi. Hið sama á við ef héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari telja ástæðu til að almennir starfshættir lögreglu verði teknir til athugunar.

8. gr.

Málsmeðferð vegna ætlaðrar ámælisverðrar starfsaðferðar
eða framkomu lögreglu.

Lögreglustjóri, ríkislögreglustjóri eða héraðssaksóknari skulu að jafnaði innan þriggja mánaða frá móttöku framsendrar tilkynningar frá nefndinni hafa lokið meðferð máls samkvæmt 2. mgr. 6. gr. Tilkynningu skal skrá í skjalakerfi viðkomandi embættis. Um málsmeðferð fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gera skal nefndinni viðvart ef við meðferð máls vaknar grunur um refsivert brot starfsmanns lögreglu.

Stjórnvald samkvæmt 1. mgr. skal gera nefndinni, hlutaðeigandi starfsmanni lögreglu og borgara grein fyrir niðurstöðu máls ásamt rökstuðningi. Nefndin skal beina ábendingu til ríkislögreglustjóra ef talin er þörf á því að almennir starfshættir lögreglu verði teknir til athugunar vegna niðurstöðu lögreglustjóra, héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara. 

9. gr.

Málsmeðferð vegna tilkynningar um almenna starfshætti lögreglu.

Ríkislögreglustjóri skal fjalla um tilkynningar sem varða almenna starfshætti lögreglu og leggja mat á hvort breyta þurfi verklagsreglum vegna atvika sem upp koma í samskiptum lögreglu við borgarana. Ríkislögreglustjóri skal að jafnaði hafa lokið meðferð máls innan sex mánaða frá því að ábending berst frá nefndinni. 

10. gr.

Eftirfylgni mála.

Nefndin skal fylgjast með meðferð viðkomandi embættis á málum sem falla undir reglur þessar. Nefndin skal, ef tilefni þykir, senda viðeigandi embætti eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum athuga­semdir sínar við afgreiðslu einstakra mála eða tillögur um aðrar aðgerðir, s.s. beitingu aga­viðurlaga þótt ekki verði höfðað sakamál, breytingar á verklagsreglum, úrbætur á tækjum og búnaði lögreglu eða fræðslu.

11. gr.

Birting upplýsinga.

Nefndin skal árlega senda ráðherra og birta opinberlega skýrslu um fjölda mála og niðurstöður þeirra. Nefndin skal halda úti vefsíðu þar sem upplýst er um hlutverk nefndarinnar og reglur sem um hana gilda, eyðublöð fyrir kvartanir og kærur, tölfræðiupplýsingar o.fl.

III. KAFLI

Gildistaka.

12. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996, með síðari breyt­ingum og öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 28. febrúar 2017.

Sigríður Á. Andersen
dómsmálaráðherra.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


B deild - Útgáfud.: 16. mars 2017