Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1133/2022

Nr. 1133/2022 4. október 2022

REGLUR
um úthlutun styrkja sem félags- og vinnumarkaðsráðherra veitir samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið veitir styrki til frjálsra félagasamtaka sem starfa að verk­efnum á málefnasviði ráðuneytisins, sbr. forsetaúrskurð nr. 6/2022 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

 

1. gr.

Tilgangur.

Ráðherra veitir styrki, samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni, til að styrkja félagasamtök sem starfa á málefnasviði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Ráðherra úthlutar styrkjum að feng­inni tillögu starfshóps einu sinni á ári.

 

2. gr.

Starfshópur.

Ráðherra skipar þriggja manna starfshóp úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sem hefur það hlutverk að meta styrkhæfi umsókna og gera tillögur til ráðherra um veitingu styrkja.

 

3. gr.

Styrkir.

Styrkir eru veittir til íslenskra félagasamtaka. Með félagasamtökum er átt við skipulagsbundin, varanleg samtök tveggja eða fleiri aðila, sem stofnað er til af fúsum og frjálsum vilja með lög­gern­ingi og hafa ekki fjárhagslegan ávinning að markmiði með starfsemi sinni. Um er að ræða tvenns konar styrki:

  1. Verkefnastyrkir. Verkefnastyrkir eru veittir til afmarkaðra verkefna, sem miða að því að veita einstaklingum og hópum stuðning, fræðslu og ráðgjöf. Styrkir eru m.a. veittir til verk­efna sem felast í því að:
     Útbúa fræðsluefni og standa fyrir fræðslustarfsemi.
     Vera málsvari og standa vörð um hagsmuni félagsmanna.
     Bjóða skjólstæðingum upp á stuðning og ráðgjöf.
    Verkefnastyrkir eru alla jafna ekki veittir til lengri tíma en eins árs í senn. Í þeim tilvikum þar sem verktími er lengri en eitt ár er heimilt að veita árlegan styrk til allt að þriggja ára, með fyrirvara um fjárveitingar á fjárlögum hverju sinni.
    Ekki eru veittir styrkir til sömu verkefna og hljóta styrk á fjárlögum eða verkefna sem falla undir sjóði ráðuneytisins eða samninga við það.
  2. Rekstrarstyrkir. Styrkir eru veittir til reksturs félagasamtaka sem hafa verið starfandi í að lágmarki þrjú ár. Rekstrarstyrkir geta verið veittir til tveggja ára í senn.

 

4. gr.

Auglýsingar.

Ráðuneytið auglýsir opinberlega í október ár hvert eftir umsóknum um styrki. Ákveði ráðherra að leggja áherslu á ákveðin mál á málefnasviði ráðuneytisins skal það koma fram í auglýsingu og njóta þær umsóknir að jafnaði forgangs.

Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum, leiðbeiningar um gerð umsókna á þar til gerðum eyðublöðum, auk upplýsinga um umsóknarfrest og hvenær umsóknir verði afgreiddar.

 

5. gr.

Umsóknir.

Umsókn skal skilað á þar til gerðu umsóknareyðublaði og skal hún bera greinilega með sér hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum.

Umsókn um verkefnastyrk.

Til þess að umsókn teljist styrkhæf skulu henni fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar:

  1. Samþykktir eða stofnskrá félagasamtaka.
  2. Lýsing á starfsemi og meginmarkmiðum félagasamtaka og fjöldi félagsmanna.
  3. Nákvæm lýsing á verkefni, markmiðum þess og þýðingu fyrir umsækjanda og aðra.
  4. Tíma- og verkáætlun.
  5. Fjárhagsáætlun, þar sem koma m.a. fram upplýsingar um áætlaðan sundurliðaðan kostnað, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða hefur sótt um.
  6. Ársreikningur síðasta árs undirritaður af stjórn og skoðunarmanni reikninga.
  7. Staðfest og undirrituð gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk frá ráðuneytinu til verkefnis skal fylgja greinargerð með upp­lýsingum um framkvæmd þess og ráðstöfun styrkfjárins, til þess að ný umsókn verði tekin til greina.

Umsókn um rekstrarstyrk.

Til þess að umsókn teljist styrkhæf skulu henni fylgja eftirtalin gögn og upplýsingar:

  1. Samþykktir eða stofnskrá félagasamtaka.
  2. Lýsing á starfsemi og meginmarkmiðum félagasamtaka og fjöldi félagsmanna.
  3. Fjárhagsáætlun, þar sem koma m.a. fram upplýsingar um sundurliðaðan áætlaðan kostnað, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við starfsemina þ.m.t. annar fjárstuðningur úr ríkissjóði til starfsemi samtakanna.
  4. Ársreikningur síðasta árs undirritaður af stjórn og skoðunarmanni reikninga.
  5. Umsækjendur um rekstrarstyrk geti sýnt fram á fastan rekstrarkostnað s.s. vegna starfs­manna og/eða húsnæðis.

Umsóknir sem berast eftir tilskilinn umsóknarfrest eru ekki teknar til umfjöllunar.

 

6. gr.

Mat á umsóknum.

Við mat á styrkhæfi umsókna um verkefnastyrk, tekur starfshópurinn skv. 2. gr., mið af eftir­töldum atriðum, auk þeirra skilyrða sem talin eru í 3. og 5. gr.:

  1. Gildi og mikilvægi verkefnis fyrir viðkomandi málaflokk.
  2. Markmið verkefnis séu skýr og grein gerð fyrir tilætluðum árangri.
  3. Fram komi með skýrum hætti hvernig meta eigi árangur verkefnis.
  4. Fjárhagsgrundvelli verkefnis og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki til sama verk­efnis.
  5. Eigna- og fjárhagsstöðu umsækjanda.

Við mat á styrkhæfi umsókna um rekstrarstyrk tekur starfshópurinn mið af eftirtöldum atriðum, auk þeirra skilyrða sem talin eru í 3. og 5. gr.:

  1. Gildi og mikilvægi starfsemi umsækjanda fyrir viðkomandi málaflokk.
  2. Eigna- og fjárhagsstöðu umsækjanda.

 

7. gr.

Úthlutun.

Starfshópurinn gerir tillögu til ráðherra um úthlutun styrkja. Tillögur starfshópsins fela í sér almenna lýsingu á framkvæmd og málsmeðferð við tillögugerðina. Ráðherra tekur ákvörðun um styrk­veitingar á grundvelli framkominna tillagna. Tilkynna skal öllum umsækjendum um afgreiðslu umsóknar.

Heimilt er að binda styrkveitingar skilyrðum og gera samninga við styrkþega er stuðla að eðli­legri framvindu þeirra verkefna sem styrkt eru. Í þeim tilvikum kemur styrkur ekki til greiðslu nema að uppfylltum þessum skilyrðum. Í því skyni er heimilt að krefja styrkþega um skýrslur um fram­vindu þess verkefnis sem styrkt er. Lokagreiðsla styrkfjár kemur að jafnaði ekki til greiðslu fyrr en við skil til ráðuneytisins á gögnum sem gerð er krafa um hverju sinni, svo sem greinargerð um fram­gang og lok verkefnis, ársreikning o.fl.

Að lokinni styrkúthlutun birtir ráðuneytið nöfn styrkþega, ásamt upplýsingum um upphæð styrkja.

 

8. gr.

Upplýsingagjöf, uppgjör og endurskoðun.

Styrkþegum er skylt að kynna ráðuneytinu stöðu verkefnis. Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða verði önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki uppfyllt innan eðlilegra tímamarka teljast forsendur brostnar. Áskilur ráðuneytið sér þá rétt til að ógilda styrkveitinguna og krefja styrkþega um endurgreiðslu á greiddum styrk, að hluta til eða í heild sinni, ásamt kostnaði við innheimtu.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið, eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, getur ráðuneytið krafist þess að styrkurinn verði endurgreiddur í heild eða að hluta. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.

Reynist útgjöld vegna verkefnis samkvæmt umsókn lægri en útborguð styrkfjárhæð skal styrkþegi ótilkvaddur endurgreiða ofgreiddan styrk innan 30 daga frá því að fjárhagsuppgjör lá fyrir. Að öðrum kosti innheimtir ráðuneytið ofgreiddan styrk ásamt innheimtukostnaði.

Að verkefni loknu skal styrkþegi kynna ráðuneytinu árangur og niðurstöður með skriflegri skýrslu eða á annan hátt sem getið er um í samningi við styrkþega og í síðasta lagi fyrir lok þess árs sem styrkurinn var veittur til.

Styrkþegar sem hljóta rekstrarstyrki lengur en til eins árs skulu árlega senda ráðuneytinu árs­skýrslu ásamt undirrituðum ársreikningi og upplýsingar um ráðstöfun styrkfjárins.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar öðlast gildi við birtingu. Um leið falla þá úr gildi eldri reglur um úthlutun styrkja sem ráðherra félagsmála veitir samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni, dagsettar 1. októ­ber 2019.

 

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 4. október 2022.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Gissur Pétursson.


B deild - Útgáfud.: 13. október 2022